Thursday, April 28, 2016

Huskið bætir og kætir lífsgæðin!

Sólin skín, skítakuldi úti en maður brosir í gegnum það. Magnað hvað það getur gert manni gott að vakna snemma með sólina á lofti heldur en í niðamyrkri. Ég náði loksins í morgun að rífa mig snemma á fætur og skella mér í ræktina áður en ég þurfti að mæta í vinnu klukkan 9. Ég bara elska að sofa að mér finnst stundum freeekar leiðinlegt að vakna svona snemma haha.

Vestmannaeyjar svo fallegur staður <3

Nú er ég alltaf að spá og spekúlera í mataræðinu, það er jú næringin sem heldur okkur á lífi. Ég lít á mannslíkamann sem vél og maturinn er orkan okkar, því skiptir rétt mataræði svo miklu máli, ég fer nú varla að setja dísel á bensín vél ;) Ég hef prufað ýmislegt og hef ég fundið út að þegar ég tek út hveiti og sykur þá líður mér líkamlega best. Því fór ég að hugsa hvernig glúten óþol lýsti sér, og jújú ég tengi við mjög margt þar, þannig núna hef ég ákveðið að prufa að taka út glúten næstu vikur/mánuði og sjá hvaða áhrif þetta hefur á mig. Ég er því að verða ein af "Er þetta glúten frítt?" fólkinu, sorry... not sorry.

Nýlega kláraði ég að vinna að umbroti að bók fyrir rithöfund í Reykjavík sem heitir Hanna Ólafsdóttir, yndisleg og klár kona. Hún skrifaði bók sem heitir Fæðingarsögur og fjallar hún um sögur 50 íslenska kvenna, hvernig þeirra reynsla var að eignast barn. Ég sjálf hef ekki eignast nein börn en mér fannst mjög áhugavert og skemmtilegt að lesa þessar sögur, hún nær að koma þeim svo skemmtilega fram. Hér er hægt að sjá viðtal við hana á Vísi http://www.visir.is/allt-a-ad-vera-fullkomid/article/2016160429024  og á Bleikt http://bleikt.pressan.is/lesa/otholandi-typa-og-49-adrar-faedingarsogur/#.VyJah0zvCl4.facebook. Bókina verður hægt að nálgast í flestar bókaverslanir á næstunni.

Það var frekar súrrealískt að fá bókina í hendurnar

En ég held það sé kominn tími á eina uppskrift frá mér. Husk hefur orðið góður vinur minn, daglega fæ ég mér husk og hefur það betrumbætt mataræði mitt til muna. Hér eru einungis brot af því sem Husk getur gert fyrir mann:

  • Betri melting
  • Styrkir hjartað
  • Lækkar kólesteról
  • Hjálpar til við kílóin

Það sem ég ætla að bjóða uppá í dag er mjög skemmtileg uppskrift þar sem það er hægt að leika sér mjög að henni. Husk morgunmúffur, sem eru líka alveg leyfilegar í þrjúkaffinu eða hvenær sem manni langar í ;) 

Unaðslegar!

Husk-morgunmúffur

Gerir 4

Innihald: 

1/2 stappaður banani
1 egg
1/2 - 1 dl husk (ég helli vanalega bara eitthvað oní skálina því ég er dáldið mikill slumpari, 
en myndi giska á að þetta væri sirka svona mikið sem ég set, fer líka eftir 
hversu mikla þykkt þið viljið í deigið)
1 msk sykurlaus eplamús
1/3 tsk vínsteinslyftiduft
Kanill (valkvæmt, hægt að nota önnur krydd eins og t.d. hreint kakó)
1/2 skeið vanilluprótein (valkvæmt)
1 röð af niðurbrotnu stevía súkkulaði (valkvæmt) 
Slumma af Karamellu sýrópi frá Walden farms (valkvæmt)
Örlítið salt

Aðferð:

1. Banani stappaður
2. Öllu blandað saman við í eina skál
3. Fjögur múffuform spreyjuð með pam spreyji áður en deigið er sett ofaní, huskið vill 
svo til að festast
4. Inní ofn á 200°C í 15-20 mín, eða þar til gullin


Það er vel hægt að breyta til og bæta við þessa uppskrift, t.d. setja bláber, valhnetur, nota súkkulaði sýróp í staðinn fyrir karamellu, nota hunang í staðinn fyrir eplamús, you name it! Endilega leikið ykkur að þessu og njótið!

Þetta er mjög gott súkkulaði :)


ps. Í dag er akkurat mánuður í að kærasti minn komi til Íslands að heimsækja mig, það ískrar í mér af spenningi! <3 

The love of my life <3


Þar til næst!

Alexandra Sharon




Friday, April 15, 2016

♡ Jákvæðnisbros frá mér til ykkar ♡

Góðann daginn fallegu þið <3

Ég fékk allt í einu einhverja svakalega löngun í að skrifa smá færslu hérna, greinilegt að ég er komin aftur í blogg gírinn ;) Ég lofa þetta verður ekki ritgerð, allavega ekki löng hehe :)

Fyrir nokkrum vikum síðan var auglýst frí fjarþjálfun, 12 vikna áskorun, hjá einkaþjálfara sem heitir Skúli Pálmason. Ákvað ég að slá til og vera með, ég ákvað þó að vera ekki í keppninni sjálfri heldur taka þetta bara fyrir mig, og verð ég að segja að þetta er algjör snilld! Við höfum aðgang að innri vef, erum með facebook grúppu, snapchat aðgang (sterkarstelpur) og æfingarprógrömm, bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Það er svo gaman að fá að fylgjast með hinum stelpunum, allar svo duglegar og standa sig svo vel og tek ég hattinn ofan fyrir þeim sem segja frá slæmu dögunum og viðurkenna að hafa hafa fengið sér súkkulaði á miðvikudegi eða sleppt líkamsræktinni en þá erum við allar tilbúnar í að peppa hvor aðra upp og viðurkenna okkar eigin slæmu daga. Það er ekki alltaf auðvelt! En við getum ekki verið fullkomin, og annað væri heldur ekkert gaman ef það væru engar áskoranir í lífinu! 

Preach!

Ég er ein af þeim sem hef alltaf haft aukakíló á mér frá því ég fæddist! Mér var strítt þegar ég var krakki, auðvelt skotmark þar, en einhvern vegin hef ég alltaf verið hamingjusöm með sjálfa mig. Jújú það koma misgóðir dagar hjá mér, ég ætla ekkert að fara að sykurhúða það, og það var eitt tímabil í lífi mínu sem mér fannst ég vera svolítið týnd og fannst ég ekki passa neinstaðar inn en fyrir mér er þetta bara einn partur af leið minni að kynnast sjálfri mér og móta mig sem einstakling. Mín stærstu og bestu skref voru að flytja fyrst erlendis, nánar tiltekið til Kanada, þegar ég var 16 ára gömul. Það opnaði augun mín (og kveikti á ferðabakteríu minni) hversu margir möguleikar eru til staðar fyrir mig. Að taka svona stórt skref svona ung var stressandi fyrst og mjög erfitt en þegar upp var staðið þá var þetta það besta sem ég gat gert fyrir mig. Ég er alls ekki að segja að þetta henti öllum og að ég viti allt bara orðin 24 ára gömul (verð 25 ára í næsta mánuði holyyyy...)en mig langar að hvetja þá einstaklinga sem finnast þeir vera í föstum skorðum í lífinu að stíga skref út fyrir þægindahringinn og ögra sjálfum sér til að sjá hversu mikið þið eruð fær um að gera. Afþví við eigum það til, allavega ég, að mikla hluti fyrir okkur og draga okkur niður með þeirri hugsun "Ég get ekki gert þetta" en svo komum við okkur alltaf á óvart með getu okkar og ef okkur mistekst þá er ekkert sem stöðvar okkur að reyna aftur og gera betur næst. Akkurat núna er ég einmitt að íta mér áfram að lesa, já lesa, fyrir öðrum gæti lestur verið eitthvað fáránlega lítið mál og finnst þetta bara asnalegt en fyrir mér er þetta mikið mál og það er það eina sem skiptir máli. 

Ég hef alltaf elskað súkkulaði en ég hef líka alltaf verið fabulous! ;)

En það sem mig langar í raun að segja er að við erum öll einstök á okkar eigin hátt, elskum okkur sjálf og hvort annað. Andleg heilsa skiptir gífurlega miklu alveg eins og líkamleg heilsa. Skiptir ekki máli hvort við séum stór, lítil, feit, mjó, svo framarlega að við erum ánægð og líður vel þá er framtíðin björt (ótrúlega mikil jákvæðnispepp jájá koma svo). Jákvæðni mín sem Guð gaf mér og mamma kennt mér hefur hjálpað mér að sigrast á ýmislegu! Ekki brjóta ykkur niður þó þið fenguð ykkur eitt nammi eða kanski fimmtán (ég tek nammi fyrir afþví ég er svo mikill grís og er með týpíska sykursjúklinga syndrome). Tökum einn dag í einu <3

En nú ég ætla að láta þetta gott heita og vona að þið farið peppuð inní helgina, sumar dagurinn fyrsti í næstu viku, eins gott að taka fram kuldagallann! Soooorrryyy ekkert jinx í gangi hérna!

♡ Ást, gleði og friður til ykkar allra ♡

p.s. Áfram Sterkar stelpur! 

Alexandra Sharon



Wednesday, April 13, 2016

Long time no see amigos!

Jææææja, halló halló, er ekki komin tími á einhverja færslu frá mér? 

Ég er ekki búin að gleyma þessari síðu, ég er bara búin að vera ótrúlega upptekin frá því ég kom aftur til Íslands. Það má segja að þetta ár hafi haft með sér í för miklar breytingar frá því árinu áður. Ég flutti aftur í heimabæ minn, Vestmannaeyjar, sem ég hef ekki búið á síðan ég var 18 ára, komin heim í mömmu og pabbahús í smá tíma, get ekki kvartað þar. Ég byrjaði í nýrri vinnu í Janúar, er víst orðin sjoppukelling, er að vinna sem grafískur miðlari/hönnuður heima frá mér, datt óvart í samband áður en ég flutti aftur til Íslands og er því í fjarsambandi og síðan hef ég ákveðið að sækja um í skóla í Kanada í Bachelor nám í Grafískri Hönnun. En með þeirri ákvörðun fylgir mikil vinna og undirbúningur.  Ég þarf til dæmis að taka enskupróf sem kallast TOEFL, og er þetta svona staðlað enskupróf sem skólar úti vilja að alþjóðlegu nemendurnir taki til þess að þeir geti séð enskukunnáttu þeirra. Ég ætla ekki einu sinni að fara útí hversu pirrandi mér finnst þetta próf vera haha, ég er búin að taka það einu sinni og var ég 9 stigum undir þeirri einkun sem ég vil vera með og þarf að vera með til þess að geta verið metin inní einhvern skóla þarna úti, en ég gefst ekki upp! Læri bara betur og meira og ég skal ná þessu næst! Það er nú ekki eins og ég skilji ekki ensku þar sem ég þarf að tala við kærasta minn á hverjum degi á ensku og fjölskylda systur minnar eru bara enskumælandi. Þetta próf er sjúklega stressandi og verð ég að ná tökum á því, en þetta hefst allt í endan, ég trúi bara ekki öðru! (Vera jákvæð). En nóg um þetta próf. 


Mikið var nú gott að komast aftur í kúr hjá Perlu minni <3

Ást mín á Avocado hefur enn ekki dvínað, held ég nú bara aukist! Í dag var ég í einhverju stuði að prufa eitthvað sem ég hef aldrei gert áður og fann ég þessa æðislegu uppskrift af Avocado trufflum, og eru þær vægast sagt TRUFLAÐAR! Ég er svo mikill sælkeri að ég verð alltaf að eiga eitthvað svona í frystinum til þess að grípa í þegar löngunin í eitthvað sætt blossar upp hjá mér. Er ég búin að fá nokkrar fyrirspurnir á snapchattinu mínu að deila þessari uppskrift með sér og ákvað ég þá að það hlaut að vera komin tími á eins og eitt stykki bloggfærsla með uppskrift. En ég ætla ekki að drekkja ykkur í blaðri í mér og segja þetta gott í bili. 

Ást, gleði og friður til ykkar allra og megið þið öll njóta þessara geggjuðu súkkulaði avocado bombu sem fitar engan! Draumur í dós fyrir súkkulaði unnendur eins og mig! 

Nammigott!


Dökkar súkkulaði Avocado trufflur


Innihald:

1 bolli dökkt súkkulaði (ég notaði 2 sykurlausar plötur með stevia, fást í krónunni)
1 tsk kókosolía
1/2 stórt Avocado
Smá sjávarsalt
3 msk kakóduft

Aðferð:

1. Setjið súkkulaði og kókosolíu í skál og bræðið í örbylgjuofni, ég byrjaði á 40 sek, tók út og hrærði saman og endurtók þar til allt var bráðið.
2. Avocado sett í blandarann eða matvinnsluvél og blandað þar til orðið að mauki.
3. Súkkulaðinu hellt ofaní blandarann og salti bætt við, blandið vel. 
4. Skella blöndunni í annað form og geymist í kæli í um 1 klst. 
5. Eftir kælingu ætti blandan að vera orðin stíf og þá má móta kúlur.
6. Veltið kúlunum uppúr kakóduftinu og raðið helst á ittala disk, en ég er víst ekki nógu cool að eiga svoleiðis þá notast ég við gamlan, eiturbláan blómadisk frá mömmu. 

SÚKKULAÐI-BOMBA

NJÓTIÐ VEL ELSKURNAR! <3

-Alexandra Sharon

Tuesday, September 15, 2015

Avocado Brownies - enginn sykur, ekkert hveiti, engar mjólkurvörur!

Eins og ég hef sagt frá áður þá er ég búin að taka út sykur, hveiti og mjólkurvörur. Hljómar hræðilegt, en vá það er sko aldeilis hægt að baka án þess að nota þessi innihöld! Og eins og þið hafið tekið eftir og ég deilt með ykkur að ég eeeelska Avocado! Þar sem ég átti nokkur Avocado sem nauðsynlega þurfti að nota áður en þau skemmdust, hví ekki að baka eitthvað úr þeim? Ég fann þessa æðislegu uppskrift af Avocado Brownies. Enginn sykur, ekkert hveiti, engar mjólkurvörur.... a dream come true! Eina sem mér fannst var að útkoman var meira eins og mús heldur en brownie, hún var mjög mjúk og áferðin silki en mjög bragðgóð. Ég ætla að prufa hafa hana í frysti og sjá hvernig hún kemur út þannig. Kanski í framtíðinni mun ég prufa mig eitthvað áfram með þessa uppskrift, spurning um að bæta við döðlum eða einhverju gúmelaði. En hér kemur uppskriftin sem ég notaði í dag, vona að þið njótið jafn vel og ég.


Avocado Brownies

Innihald:

1/2 bolli dökkt sykurlaust súkkulaði/súkkulaði dropar 
(ég nota dökka súkkulaði dropa sem eru sættir með stevia)
1 msk kókosolía
2 stór avocado
1/2 bolli sykurlaust sýróp (eða önnur sæta)
2-3 msk Xylitol
1/4 bolli hreint kakó
1 msk vanillu dropar
1 msk kókoshveiti 
(ég átti það ekki en tók kókosmjöl og muldi það í kaffikvörn)
3 egg
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt

Aðferð:

1. Bræðið saman kókosolíu og súkkulaði í örbylgjofni í sirka 30-40 sek, viljum að þetta sé silkimjúkt.
2. Maukið avocado í matvinnsluvél þar til það er silkimjúkt, enga kekki, viljum ekki guacamole ;)
3. Blandið restinni af uppskriftinni saman í matvinnsluvélinni (líka hægt að nota handþeytara).
4. Þegar allt er orðið vel blandað hellið í eldfast mót og bakið í 30-35 mínútur á 180°C. 
5. Eftir bakstur leyfið henni að kólna og geymið svo í kæli í sirka 30 mínútur. 




Verði ykkur að góðu!

Alexandra Sharon

Thursday, September 10, 2015

Prótein smákökur "to die for"

Svo virðist vera sem ég er rosa léleg í að setjast fyrir framan tölvuna og skrifa hérna á þessa síðu. En hér er ég! Ekki alveg búin að yfirgefa ykkur. Sumarið hérna í Kanada er búið að vera rosalega gott, búin að kynnast skemmtilegu fólki og skoða aðeins bæina hér í kring og náttúru. Mér finnst rosalega gaman og fallegt að sjá að hérna eru árstíðir, annað en á Íslandi haha. Laufin eru rétt byrjuð að breyta um lit en í næsta mánuði verður haustið alveg komið.

Ég og vinkonur mínar heimsóttum bæinn Elora um daginn.

Hinsvegar þá langar mig að segja ykkur aðeins frá breytingunum sem ég er búin að gera í mataræðinu. Nú er ég búin að taka út sykur, hveiti og mjólkurvörur úr daglegu mataræði. Ég er þó ennþá með nammidag einu sinni í viku en hann mun líklegast breytast bráðum. Ég ákvað að taka þetta úr mataræði mínu bæði vegna þess að ég er með vefjagigt og mig langar að vera heilsuhraust. Sykur er algjört eitur í mínum líkama, hveiti og mjólkurvörur ekkert síðri. Eina sem ég veit um að inniheldur mjólkurprótein í minni daglegri notkun er próteinið sem ég nota, ég prufaði vegan prótein og það var bara svo hræðilega sætt að ég gat ekki borðað það! Maður verður bara að málamiðla :) Mér er búið að líða rosalega vel á þessu mataræði en þetta getur verið erfitt. Ég tók þetta í hænuskrefum í byrjun. Byrjaði á að taka út mjólkina í kaffinu og nota kókosolíu í staðinn, síðan tók ég út ostinn og notaði frekar Daya ost sem kom rosalega skemmtilega á óvart! Næst var það að taka út tortilla pönnukökurnar út og var ég svo rosalega heppin að ég fann tortilla pönnukökur sem eru búnar til úr brúnum hrísgrjónum. Síðan er það sykurinn. Ég hef alltaf verið með sæta tönn, má segja að þetta sé hálfgerð fjölskylduböl þar sem flestir í minni fjölskyldu eru mikið fyrir sætindi haha. Einhvern vegin þurfti ég að finna út hvað ég gæti fengið mér á daginn sem myndi fullnægja þessari sykurlöngun. Borða reglulega hjálpar, drekka nóg af vatni hjálpar... en samt koma þeir dagar þar sem seinni partinn er ég með öskrandi löngun í súkkulaði eða eitthvað sem inniheldur sykur. Ég lagðist í rannsóknar vinnu á internetinu að leita af sykurlausum uppskriftum sem voru líka mjólkur- og hveiti lausar. Rakst ég þá á þessa einföldu og góðu uppskrift af Prótein smákökum, svo kölluðum Protein Brookies þar sem einn helmingurinn er súkkulaðibitakaka og hinn helmingurinn er brownie smákaka. Þær eru búnar að slá í gegn hjá okkur systrum og þvílíkt hvað þær hjálpa til seinni partinn þegar mig langar í kaffisopa og eitthvað sætt með því. Í einni smáköku eru 7 gr protein og 184 kcal. Í upprunalegri uppskrift þá er notast við kókospálma sykur en ég breytti því yfir í Xylitol. Ég er núna búin að baka þessar smákökur 2x. Í fyrra skiptið bakaði ég "brookies" en í seinna skiptið bakaði ég bara brownie smákökurnar. Bæði virkar vel og er algjörlega hægt að ráða þessu hvernig hver og einn vill. Hér fyrir neðan ætla ég að deila gleðinni minni með ykkur.

Protein Brookies

Mynd: http://dailyburn.com

Innihald:

Súkkulaði bita smákökurnar:

1 bolli hnetusmjör eða möndlusmjör - verður að vera fljótandi ekki þurrt
1/2 bolli vanillu prótein 
1/3 bolli Xylitol ( eða eitthvað annað sætuefni )
1 stórt egg
3 msk sykurlausir/mjólkurlausir súkkulaði dropar

Brownie smákökur

1 bolli hnetusmjör eða möndlusmjör - verður að vera fljótandi ekki þurrt
1/2 bolli súkkulaði prótein
2 msk kakóduft
1/3 bolli Xylitol
1 stórt egg

Mynd: http://dailyburn.com

Aðferð:

1. Hitið ofnin í 180°C
2. Takið tvær skálar, í aðra skálina blandið saman súkkulaðibita kökudeiginu og í hina skálina brownie smákökunum. Ef að deigið er of þykkt, fer mjög eftir hnetu/möndlusmjörinu sem er notað, er hægt að bæta við smá vatni, ef að deigið er of þunnt er hægt að bæta við meira af próteini. 
3. Takið eina matskeið af hvoru deigi og rúllið í höndunum og parið saman hlið við hlið á bökunarplötu. 
4. Bakið í ofninum í 10-12 mínútur, látið kólna
5. Til þess að kökurnar verði fullkomnar þá er best að setja þær í ziplock poka og geyma í frystinum. 

Verði ykkur að góðu!

Alexandra Sharon



Thursday, July 9, 2015

Sumarið, sól og söngur

Nú er orðið frekar langt síðan ég skrifaði hér inná, sumarið er búið að stela tíma mínum! Búið að vera nóg að gera, ég heimsótti Ísland í júní í 2 1/2 viku sem var yndislegt. Fékk vott af góðu íslensku sumri þá daga sem ég var þar, rigning og rok á köflum. Verð nú eigilega að segja að stundum saknar maður íslenska lofstlagið hérna úti þegar það er orðið alltof heitt og loftið alltof rakt. Svo þegar veturinn kemur þá get ég lofað ykkur því að ég vilji frekar fá sólina aftur! Maður verður bara að minna sig á daglega að njóta hvers dags sem maður hefur, lifa í núinu og vera þakklátur fyrir það sem manni er gefið í lífinu. Hversu erfitt sem það getur stundum verið, þá reyni ég alltaf að horfa á það jákvæða í lífi mínu heldur en að einblína á það neikvæða. Núna um daginn var ég að syngja á tónleikum hérna í Guelph með almennings kór (community choir). Kórinn heitir Cork street chorus og erum við með yndislegan kórstjóra sem kemur frá Írlandi. Kórinn var stofnaður í Janúar og var eigilega tilraun í byrjun. Nú hefur kórinn vaxið vel og fyrstu stóru tónleikarnir okkar voru haldnir 3 júlí síðast liðinn. 

Tekið frá tónleikunum

Þema tónleikana voru lög af "hvíta tjaldinu" og var mikil vinna lögð í þetta verkefni. Við fengum sjálboðaliða sem vildu sjá um að gera allskonar tegundir af poppkorni og óáfenga kokteila fyrir gesti, við fengum kynni, við fengum hljómsveit til að spila með okkur og hljóðmenn. Tónleikarnir fóru fram úr okkar vonum og komu 118 manns til að horfa á okkur syngja, aðgangur var frír en við vorum með styrktarbauka á staðnum fyrir Hope House sem sérhæfir sig í að hjálpa fjölskyldum á götunni. Við náðum að safna yfir 500$! Og aðalmarkmiðið okkar var bara að skemmta okkur og tjá okkur með tónlist, við fengum bónus ofaná það að geta aðstoðað svona frábæru framtaki fyrir heimilislausa. Þetta gladdi hjarta mitt. Ég er búin að kynnast yndislegu fólki í gegnum þennan kór sem ég er svo þakklát fyrir. En þetta er svona aðalega sem er búið að vera að gera hjá mér hérna úti síðan ég kom aftur, um leið og ég fæ einhverjar upptökur frá tónleikunum þá fáið þið auðvitað að sjá líka! 

Cork street Chorus! 

En að öðru, þá var ég að bæta inn í uppskriftirnar. Ég elska Avocado, ég gerði það ekki áður, en núna kann ég virkilega að meta Avocado. Eina sem ég á erfitt með er að borða það hrátt. Þannig ég hef prufað mig áfram og besta útkoman sem mér fannst var að baka það í ofninum. Avocado í smoothie er líka æðislegt, ég mun bráðlega setja inn uppskrift af því. En á meðan, njótið, elskið og lifið! 

Alexandra Sharon

Thursday, April 23, 2015

Gott chia í millimál

Gleðilegt sumar!

Voðalega er ég komin með mikin sumarfiðring og farin að hlakka vandræðarlega mikið til að fá sólina og sumarilminn! Hinsvegar hérna í Kanada ákváðu veðurguðirnir að gefa okkur smá skammt af íslensku veðri og sendu smá snjó seint í gærkvöldi, en hann hverfur fljótt, ég hef engar áhyggjur af því. Það eru skemmtilegir mánuðir fram undan hjá mér, Helga vinkona mín kemur í heimsókn um miðjan maí og síðan fer ég til Íslands í tvær vikur í byrjun Júní! Jibbí!

Hinsvegar langar mér að deila með ykkur chia graut sem ég fæ mér stundum sem millimál, ég elska chia! Fullt af omega, andoxunarefnum og trefjum. Hægt er að setja hvað sem manni langar í chia grautinn en uppskriftin hér að neðan er sú sem mér finnst best.


Verði ykkur að góðu!

Langar að skella einni mynd með hérna inn af mér sem tölvufígúru, afþví bara!

Kínverskt app sem slær í gegn hjá mér!